Forsetinn og stjórnarskráin

Kosningabarátta frambjóðenda til forsetakjörs 30 júní nk. er hvorki gamaldags umræður né koma þar fram fornfáleg sjónarmið, sbr. grein Styrmis Gunnarssonar í sunnudagsmogganum í dag á þjóðhátíðardegi 17. júní. Þvert á móti. Kosningabaráttan er á góðri leið að efla mjög lýðræðisþroska landsmanna til betri þátttöku í ferli opinberrar ákvarðanatöku. 

Ef spurt er af hverju er svarið þetta:  Í fyrsta lagi eru þau að segja fjölmargt sem máli skiptir hvert á sinn hátt frá eigin sjónarhól; í öðru lagi eru þau öll góð sem opinberir talsmenn, öll sjónvarps- og útvarpsvæn og koma fram af hófsemi og tillitsemi.

Í þriðja lagi vekur ekki síst athygli almenn sátt þeirra allra um hver er í raun og sann staða og hlutverk þjóðhöfðingjans, samkvæmt okkar skrifaða og óskrifaða samfélagssáttmála sem er í senn grund­völlur sátt og sáttmáli undir okkar lýðveldi og lýðræði, þjóð forseta stjórnarskrá og þrískiptu ríkisvaldi.

Einn fyrir öll.

Þjóðhöfðinginn er æðsti fulltrúi þjóðarinnar, kjörinn af þjóðinni beinni kosningu, í samræmi
við húsbóndavald þjóðarinnar, og stendur því þjóðinni beint reikningsskil um allar athafnir, framkomu, bragarhátt, stíl.

Súperuppskrift fæst ekki að góðum þjóðhöfðingja, góður þjóðhöfðingi er mest eins og gott bæjartorg eða góður Austurvöllur: Þungamiðja sem skapar samkennd og samhljóm (og eftir atvikum samráð og samstarf) þegar leikur í lyndi á milli þings og þjóðar - og enn meiri
þungamiðja þegar í harðbakkann slær í þessu hjónabandi.

Sögulegt samhengi í langri sambúð þings og þjóðar hefur einfaldlega kennt okkur þessa stórlexíu: að óstýrilátri þrasgjarnri smáþjóð er það lífs­nauðsyn að eiga góðan þjóð­höfðingja sem er okkur hvortveggja: gott sameiningarafl og góður sáttasemj­ari á milli þings og þjóðar;
forsetinn er sem sagt vor eini lögskipaði veraldlegi vinur, þjóðarinnar, trúr oss grand­var heið­ursmaður og helst yfir­burðamaður vits. Og alger fásinna þegar þjóðin er sátt við sinn þjóðhöfðingja að senda hælsparki útaf þekkinguna og reynsluna fyrir óvissuna og lærlinginn.

Samfélagssáttmálinn: Þjóð forseti stjórnarskrá og þrískipt ríkisvald.

Þegar lýðveldisstjórnarskráin er bundin í orð 1944, liggja til grundvallar sátt og sáttmáli, fastbundin sögu og samhengi lands og þjóðar. Þá er lagst á eitt að móta styrk og sveigjan leik íslenskrar stjórnskipunar, í samræmi við þá megin­hugsun okkar samfélagssáttmála, að allt vald á upptök sín hjá þjóðinni.

Þess vegna er forsetinn kjörinn beinni kosningu; stjórnarskráin varin fyrir ríkisvaldinu og flokkadráttum; og forsetanum léð heimild í stjórnarskrá (26. greinin) sem færir húsbóndavald þjóðarinnar úr höndum kjörinna fulltrúa, ef uppi illvígur ágreiningur á milli þings og þjóðar. Þess vegna sverja þingmenn eið að stjórnarskránni: Til þess að þjóðin treysti þeim vel fyrir hús­bónda­valdi þjóðarinnar. Þessar tryggingar eru til þess að þjóðin sé aldrei berskjölduð fyrir mis­notkun stjórnmálavalds og/eða efnahagsvalds.

Þau sem halda kjörnir alþingismenn hafi eftir kjör opna heimild til að ráðskast með þjóð­ina, for­seta vor, stjórnarskrá og stjórnskipun lýðveldisins og hóta þjóð sinni helvítisvist þeg­ar hornreka í samningum (og skrifa samt undir dráps­klifjar eilífðarfjötra umbjóðendum sínum), hafa auðvitað hrakist svo af leið að þau hljóta að axla sitt og hjóla heim til sín burt frá
öllu stjórnunar- og ábyrgðarstarfs úr hendi húsbóndavalds þjóðarinnar.   

Stjórnarskrá með viðaukum

Það er sagt að aumingja stjórnarskráin sé nú svo illa haldin að hafi lagst inn á Vog.

Að minnsta kosti er ekki erfitt að skilja að bogni smá eftir allt eineltið gegn þessu burðar­virki okkar samfélagssáttmála.

Þrátt fyrir nokkrar góðar hugmyndir í drögum að nýrri stjórnarskrá er öllu ljóst sem les að drögin eru ógott burðarvirki.

Stjórnarskráin er hluti okkar samfélagssáttmála (eins og forseti vor og þrískipt ríkisvaldið) hún er ljóð og saga um æðstu leik­reglur okkar samfélags og því verður að gæta samhengis; og ef þarf að endurbæta á það að gerast með viðaukum, sbr. bandaríska stjórnarskráin, svo í engu týnist allt sem fylgir, þar með talin umræða ritmál gögn um túlkun og framkvæmd á hverjum tíma. Þannig verður til samfelld þróun, heilsteypt saga.

Spurt er: Hvað á blessuð stjórnmálastéttin að gera í þessu með vantraustið?

Svar: Ábyrgðin er móðir traustsins, svo til þess að öðlast aukið traust þarf stjórnmálastéttin fyrst að kveða niður ábyrgðarfóbíuna (þennan landlæga veirusjúkdóm) og byrja á sjálfri sér.

Hættið strax að frekjast svona endalaust eins og vandræðaungl­ingar gegn þjóðinni og forseta vor og stjórnarskránni, í þeirri aumu von að færa meir og meir af húsbóndavaldi þjóðarinnar í hendur stjórnmála­stéttarinnar. Hagið ykkur eins og fullorðið fólk.

Hættið að reyna að selja okkur bullið um að alræði ríkisvaldsins, ekki síst alræði kjörinna
alþingismanna, sé best af öllu, hættið að hagræða mest öllu máls verki og verkefni í átt að hrossa­kaupum endalaust samningasnakk og lærið af þjóðunum sem við helst viljum bera okkur saman við. Takk.

Send mbl 18jun12, birt 23jun12, bls 28; birt á bloggs.26jun12

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband