Jafnvirði hljómar vel. Sannvirði hljómar einnig vel. Á samkeppnismarkað eins ólík og blátt og bleikt, epli og appelsínur.

Okurverðlagið á seldum íslenskum íbúðalánum og áralöng umræða um nauðsyn leiðréttingar úr hendi seljenda og stjórnvalda vegna forsendubrests seldra lána hefur leitt til þess að æ fleiri útlendingar hrista hausinn með okkur landsmönnum yfir þessu séríslenska einelti á fjármálamarkaði sem hvergi fær að þrífast í okkar heimshluta annars staðar en hérlendis.

Þó að skilningur aukist hjá þeim sem með ákvörðunarvald fara um verðlag og viðskiptaumhverfi íbúðalána, dylst engum einbeittur vilji hagsmunaaðila sem enn berjast gegn því að þessi málefni verði leyst með sambærilegum hætti og hjá okkar nágrannaþjóðum. Samtryggingarkór sem endalaust snýr út úr lögmálum viðskipta- og rekstrarábyrgðar á rekstrarákvörðunum. Spinnur fullyrðingaflaum endalaust röksemdalaust. Eins og aldrei hafi þurft að taka ábyrgð á sölu gallaðrar vöru. Nú síðast spunnið í útfærslu Hægri grænna á amerísku leiðinni; útfærsla sem miðar leiðréttingu höfuðstóls allra seldra verðtryggðra íbúðalána við gildistöku MiFid reglna hérlendis, hinn 1. nóv. 2007, og stöðu neysluverðsvísitölunnar þá, ca. 280 stig. 

Upprifjun

Rangtúlkunar- og misskilningsvilji hefur mjög sett mark sitt á baráttu hagsmunakórs seljenda íbúðalána, tafataktík sem virðist hafa komið á óvart, ekki síst kjörnum fulltrúum úr hópi lögmanna, jarðfræðinga og flugfreyja. Vert er að minnast að krafa um jafnvirði eignar yfir tíma, hvort sem er reiðufé, útistandandi launakröfur eða aðrar viðskiptakröfur, víxlar, skuldabréf, hlutabréf, bifreiðar eða aðrir lausafjármunir, fasteignir, er krafa um 100% áhættufrítt sem jafnframt er krafa um 100% ábyrgðarlaust.
 
Jafnvirði eignar yfir tíma er tryggt verðgildi eignar óháð tíma, ákvörðun, aðgerð; krafa um áhættulausa þróun verðgildis eignar yfir tíma; krafa um óháð náttúrulögmálum ryðs og möls sem öllu eyða; krafa um 100% áhættufrítt spil, krafa um 100% ábyrgðarleysi, krafa jafnvitlaus og krafan um eilífa æsku.
 
Sannvirði eignar yfir tíma er ótryggt verðgildi eignar háð tíma, ákvörðun, aðgerð, krafa háð áhættu óvissu um þróun verðgildis eignar yfir tíma; sannvirði er því krafa um ásættanlegt verð, eðlilegt og sanngjarnt verð; krafa um raunhæft verð, háð náttúrulögmálum ryðs og möls, krafa um traust og ábyrgð, krafa um skipta áhættu óvissu um þróun verðgildis eignar í viðskiptum á milli seljanda og kaupanda.
 

Okurversið

„Jafnverðmætar krónur til baka með sanngjörnum vöxtum.“ sagði Gunnar Baldvinsson í tímamótagrein í Mbl. 12. júlí 2011, (sbr. grein undirr. 13. júlí 2011, birt í Mbl. 19. júlí 2011) og fór því enn fram á að landsmenn sætti sig við að lifa í lyginni; sætti sig við að lifa áfram í draumaheimi ábyrgðarlausa áhættufría fjárhættuspilsins sem gerir kröfu um jafnvirði óháð tíma, ákvörðun, aðgerð.
 
Magnaðri er þó hetjutenórinn Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrv. hæstaréttardómari, í grein sem birt er í Mbl. 5. mars 2013, undir greinarheitinu: Lýðskrum, þar sem segir: „Eðlilegt er að sá sem lánar öðrum peninga vilji áskilja sér að fá jafnvirði lánsins endurgreitt sem og einhverja vexti sem umbun fyrir lánveitinguna. Sé honum bannað að áskilja sér þetta hættir hann að lána peninga.“ Jafnvirði lykilorðið og sáluhjálpin. Til efs er að nokkur maður íslenskur hafi áður játað á sig svo algera vankunnáttu um fjármál og markaðsstarfsemi, lánsviðskipti og bankastarfsemi, nema ef vera skyldi íslenski utanríkisráðherrann, líffræðingur og fyrrverandi heimsgúrú um ákvarðanatöku í efnahagsmálum, áður en hann játaði að hann hefði því miður ekki hundsvit á efnahagsmálum.
 
Þriðji súpersöngvarinn margreyndur sólóisti Kristinn H. Gunnarsson hóf upp raust sína enn á þessu svelli í grein sem birtist í gær í Frbl. 14. mars 2013, undir greinarheitinu: Frelsinu fylgir ábyrgð, þar sem segir: „Skuldirnar hafa ekki stökkbreyst. Minnkandi verðgildi krónunnar gerir það að verkum að fleiri krónur þarf til að endurspegla sömu verðmæti.“ Jafnvirði enn forsenda alls, lykilorð og sáluhjálp.
 
 
Ekki selja verðtryggð lán til neytenda!
 
Íslensk verðbólga endurspeglar allar verðákvarðanir í hagkerfinu sem og í alþjóðahagkerfinu, verðákvarðanir sem auðvitað ráðast af talsvert miklu fleiri þáttum en gengi íslenskrar krónu. Spurt er: Af hverju á ekki að selja verðtryggð íbúðalán til neytenda?
 
Svar: Af því að þá er búinn til súperhvati til verðhækkana í hagkerfinu. Verðákvarðanir fara að ráðast um of af ávöxtun verðtryggðra fjárfestinga. Engum seljanda íbúðaláns á að leyfast að velta afleiðuábyrgð 100% á allri verðlagsþróun á allri plánetunni yfir á kaupanda, almennan neytanda. Eða leyfast að vera svo gráðugur að nappa fjórfaldri arðsemi af sölu hvers verðtryggðs íbúðaláns hérlendis, miðað við arðsemi að meðaltali af hverju seldu óverðtryggðu íbúðaláni í okkar nágrannalöndum. Það er því brýn þörf á leiðréttingu og brýn þörf á miklu betri kjörum á íbúðalánum í þágu heimilanna.

 

Höfundur er viðskipta- og stjórnunarfræðingur

Birt í Mbl. 30. apríl 2013, bls. 24