25.2.2009 | 13:36
Krónu- og gjaldeyriskreppa: er lausnin norræn evrukróna?
Blaðagrein send mbl 25feb09
Netgrein samhlj. á jonasgunnar.blog.is 25feb09
***
Íslenskar krónur kaupir enginn í útlöndum, ótengdar evru.
Danskar krónur kaupa margir víða í útlöndum, tengdar evru og Danir íhuga alvarlegar en um árabil að taka upp evru.
Sænskar krónur kaupa margir víða í útlöndum, tengdar evru og Svíar íhuga alvarlegar en um árabil að taka upp evru.
Norskar krónur kaupa einnig margir í útlöndum, ótengdar evru. Norðmenn hafa tvisvar gengið götuna til viðræðna um aðildarsamning við ESB, í bæði skiptin kosið um aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu og fellt.
Norðmenn einna langríkastir þjóða hafa eflaust öllum Evrópuþjóðum fremur efni á því enn um sinn að minnsta kosti að leika og stunda "sjálfstæði" gegnum fokdýra norska krónu.
Íslendingar geta ekki lengur leikið það eftir þeim með íslenska krónu.
Norræn evrukróna.
Spurt er: hvernig má taka upp norræna evrukrónu, (ekr, neikr, eisk, neisk)?
Svar: Íslenska krónan yrði þá tengd evru óbeint, í samstarfi við þrjú Norðurlönd og ESB-samstarfið á grundvelli EES-samningsins og samstarfsreynslu Íslands innan ESB til 14 ára.
Lagt er til eftirfarandi:
1) Undirbúningi lokið strax og umsókn send sem allra fyrst um fulla aðild að ESB-samstarfinu svo aðildarviðræður um aðildarsamning hefjist formlega sem fyrst.
2) Íslensk króna fasttengd danskri, sænskri og norskri krónu og þar með gerð að norrænni evrukrónu, þar til Ísland getur tekið upp evru á grundvelli betri aðildar að ESB.
3. Nýja krónan, fasttengd myntkörfu þriggja Norðurlandaþjóða, verði varin sameiginlega af Íslandi, þremur Norðurlandaþjóðum og Seðlabanka Evrópu, skv. tímabundnum þríhliða samningi, þar til Ísland gengur formlega í ESB og tekur upp sama fyrirkomulag og Danir eða Svíar, með tengingu krónu beint við evru, eða Ísland tekur upp evru eins og Finnar.
4) Gjaldmiðilssamningur Íslands, þriggja Norðurlanda og ESB, komi til endurskoðunar/uppsagnar, ef Ísland hafnar aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning, að loknu umsóknar- og viðræðuferli Íslands og ESB.
Raunhæf áætlun og hvað vinnst?
Áætlunin er raunhæf vegna þess hve Ísland er fámennt og þjóðarframleiðsla smá í samanburði. Áhættan er því lítil efnahag stærri nágrannaþjóða og ESB að hlaupa undir bagga bakhjarlar nýkrónu Íslands tvö þrjú ár, ef ljá máls á; og án efa unnt að takmarka áhættuna betur í samningi aðila, með hliðsjón af samningi Íslands við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.
Með fasttengingu krónu við þessar þrjár sterkari myntir, þar sem tvær þeirra stíga dans við evru og sveiflast eins með vikmörkum er skapað nýtt hagrænt umhverfi á Íslandi í betri takt við umheiminn.
Ávinningurinn fyrst ábyrg stefnumörkun Íslands sem umheimurinn tekur mark á, sbr. grein í mbl. (20.feb.09 Qui Vadis, hvert stefnir þú Ísland?) sem slær á óvissu og eykur trú og traust á íslensku efnahagslífi, eyðir gjaldmiðils- og gjaldeyriskreppu, eykur stöðugleika og lánstraust og skapar miklu betri forsendur fyrir nauðsynlegar lagfæringar, leiðréttingar og endurreisn hagkerfis og hagstjórnar, ekki síst til þess að ná fyrr en síðar hagrænum markmiðum ESB.
Um leið skapast skilyrði til þess m.a. að afnema gjaldeyrishöft (e.t.v. þó efri mörk hreyfinga í staðinn í samningi aðila) og eyða þar með óvissu og áhættu vegna peningalegra eigna erlendra aðila í íslenskum krónum, sbr. góða grein í mbl. í gær (24.feb.09 Getum við losnað við höftin?), stórlækka stýrivexti og allt vaxtastig í landinu, afnema verðtryggingu á nýjum skuldabréfalánum útgefin á eðlilegum vaxtakjörum, endurfjármagna lán á eðlilegum vaxtakjörum, lækka verð á innfluttum vörum, stórlækka okkar heimasmíðuðu óðaverðbólgu, afleiðing fremur en orsök, svo fátt eitt sé nefnt.
Hvað tapast?
Ef spurt er hvað tapast, svarar ESB- andstaðan hás: sjálfstæði Íslands og auðlindir þjóðarinnar! Spurt ósköp einfalt á móti: á það við um ESB-þjóðirnar Dani, Svía, Finna, Breta, Íra, Þjóðverja, Frakka, Hollendinga?
Átti það við í ítarlegum umræðum og tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum Norðmanna um aðildarsamninga? Svarið við hvortveggja er nei.
ESB-umsókn er lykilatriði!
ESB-umsókn er hvort tveggja: brýn efnahagsnauðsyn og lýðræðiskrafa.
En meðan siglum höll skekktunni stefnuleysi og tökum ekki ábyrgð á framtíðinni í glímunni við nútíðina má heita vonlaust að skapa landi og þjóð traust á alþjóðavettvangi, þar með talið lánstraust og eðlileg viðskiptakjör.
Lykilatriði trúverðugrar stefnu næstu mánuði er ákvörðun um hvort Ísland stefnir á ESB-samstarfið með frændþjóðum, tengingu krónu við evru, lagfæringu brotalama hagkerfis og hagstjórnar, og á evruhagkerfi.
Eða hvort stefnir á fortíð, samdrátt og ójafnvægi í krónuhagkerfi.
Eða á óvissu og ýmis vandkvæði í dollarahagkerfi, og er þá nær að Ísland líti til annarra Norðurlanda, sbr. erlenda sérfræðinga.
Sem allra fyrst þarf ákvörðun um ESB-umsókn til að eyða hagrænni og pólitískri óvissu, endurreisa traust á framtíð og tækifæri, endurreisa lánstraust, orðspor, koma utanríkisviðskiptum í eðlilegra horf.
Karp umsókn/ekki umsókn er um það bil að falla á tíma.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.3.2009 kl. 00:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.