Umræðan um skuldafenið: þarf að endurmennta fjölmiðlafólk á Íslandi?

Blaðagrein: Umræðan um skuldafenið: þarf að endurmennta fjölmiðlafólk á Íslandi?  Send mbl. 18mar2009; netgrein samhlj. á jonasgunnar.blog.is, 18mar2009

***

Umfjöllun fjölmiðla um einna langbrýnust málefni lands og þjóðar, annars vegar um evrópumálin (tengd krónu- og gjaldeyriskreppu, pólitískri framtíðarsýn og stefnumörkun, sem og trúverðugri endurreisn hagkerfis og hagstjórnar) hins vegar um skuldafen heimila og fyrirtækja, ber því miður ósjaldan vitni um alvarlegan misskilning.

Tökum tvö dæmi af því síðarnefnda. Í morgun (18.mars.09) er forsíðufyrirsögn Fréttablaðsins um skuldastöðu heimila og fyrirtækja þessi: "Afskriftir kosta 800 milljarða"; fyrirsögn og frétt, þar sem slegið er fram fullyrðingum af óvenjulega vítaverðu kæruleysi okkar séríslenska sauðsháttar í fréttamennsku, fyrirsögn og frétt auðvitað á ábyrgð ritstjórnar blaðsins. Nánar um það á eftir.

Í leiðara Morgunblaðsins í morgun undir kjörorðunum: "Einhver borgar alltaf, kröfuhafar verða ekki hlunnfarnir", er á sama hátt alvarlega miskilið og skautað einkar óábyrgt yfir langbrýnast efnahagsverkefni stjórnvalda, almennings og fyrirtækja hérlendis, sem nú er þetta: að finna ábyrga lausn sem bæði verndar eins og unnt er verðmæti verðtryggðra lánasafna bankanna án óhóflegrar greiðslufallsáhættu og gjaldþrotaáhættu skuldara, en er um leið lausn sem hífir upp heimilin fyrst, og fyrirtækin síðan, til sjálfshjálpar, úr því herjans skuldafeni sem hagstjórn landsins hefur skapað almenningi og atvinnulífi landsins undanfarin misseri.

Skuldafen sem fyrst varð alvarlegt þegar stjórnvöld reyndust loks algerlega ófær um að ná eigin verðbólgumarkmiðum hagstjórnar: að halda verðlagshækkunum hérlendis innan 2,5% til 4,5% ársverðbólgu. Skuldafen sem hélt áfram að herða að heimilum og atvinnulífi og herðir enn að okkur á meðan stjórnvöld þora ekki að láta endurreikna verðtryggð lán afturvirkt og binda verðbótaþátt verðtryggðra lána við 4,5%; og mun herða jafnt og þétt að okkur að óbreyttu og þess vegna þvinga enn fleiri jafnt og þétt í gjaldþrot og landflótta, ekki síst á meðan ársverðbólga hérlendis er reiknuð 12 mánaða verðbólga aftur í tíma en miðast ekki við verðlagshækkun hvers mánaðar, framreiknuð til næstu tólf mánaða.

Ekkert af þessum ákvörðunum/efnahagsaðgerðum: endurútreikningur höfuðstóls, fastur tímabundinn verðbótaþáttur og ákvörðun um verðbólgustig framvirkt en ekki afturvirkt, kosta neitt í útlögðum kostnaði, þ.e. til viðbótar við útlagðan kostnað sem nú þegar þarf að greiða í stjórnsýslu og bankakerfi, því hér er breytt leikreglum, ósanngjörnum leikreglum í brýnar og réttlátar leikreglur, miðað við aðstæður.

Um leið er tryggt jafnræði aðila, bæði jafnræði kröfuhafa, hver gegn öðrum, og jafnræði skuldara, hver gegn öðrum. Hliðsjón þyrfti að auki að hafa á því að setja fjárhæðarmark en ekki prósentumark á lækkun fjárhæðar höfuðstóls hvers verðtryggðs láns/ skuldabréfs, sbr. sanngirnissjónarmið.

Ef horft er heildstætt til hagsmuna beggja aðila, kröfuhafa og skuldara verðtryggðra lána, er dagljóst að báðir aðilar hafa mun meiri hag af því að draga úr greiðslufallsáhættu og gjaldþrotaáhættu með svona samkomulagi, fyrir milligöngu stjórnvalda, sem felur í sér breyttar leikreglur, heldur en að gera það ekki; en hið síðara þýðir þá jafnframt samstundis, og skal tvíundirstrikað, að stjórnvöld hafa þá þegar óbeint tekið þá hættulegu ákvörðun að lifa við þá stóráhættu fyrir hönd hagkerfis og þjóðar að framkvæma ekki þessar löngu brýnu efnahagsaðgerðir.

Spurt er: Hvað felur sú óbeina ákvörðun og sú þráðbeina stóráhætta í sér?

Svar: a) framtíðarvirði lánasafna bankanna gæti hæglega farið niður fyrir þau 50% sem nú er rætt um að sé raun- og sannvirði verðtryggðra lánasafna bankanna miðað við bókfært virði og tíma;  b) gjaldþrotum fjölgar sjálfkrafa, landflótti eykst, eftirspurn dregst enn saman í hagkerfinu sem og skattekjur ríkis og sveitarstjórna, samfélagsþjónusta, o.s.frv.; c) strax aukin en óþörf bein útgjöld ríkis og sveitarfélaga, ef á að koma strax til móts við hvern og einn eftir þörf, jafnræði,  sanngirni, o.s.frv., sem útheimtir strax tíma og fé, sérfræðivinnu, o.fl., en er án ávinnings strax fyrir fólk og fyrirtæki, ekki síst án ávinnings strax fyrir eftirspurn í hagkerfinu, sem ein fær til lengri tíma staðið undir rekstri, störfum og skatttekjum þjóðarbús.

Það er sannarlega kominn tími til að fjölmiðlafólk hugsi sig um tvisvar og þrisvar áður en birta fréttir sínar og leiðara eins og heilagan sannleika um viðkvæm mál á alvarlegri krepputíð. Kostnaður er afar flókið hugtak. Getur þýtt beinan og óbeinan kostnað, útlagðan kostnað, fastan og breytilegan kostnað, fórnarkostnað, afleiddan kostnað, o.s.frv. Afskriftir eru t.d. aldrei útlagður kostnaður.

Forsíðufyrirsögn Fréttablaðsins í morgun 18.mars.09 er sem sagt villandi bull, fréttin er bull og ritstjórn blaðsins á að biðja lesendur afsökunar.

Við leiðarahöfund Morgunblaðsins er þörf að ítreka hið augljósa: hann ætti alls ekki að trúa kostnaðartölum né öðrum tölum hagfræðinga né annarra aðila án þess að kynna sér vandlega forsendurnar fyrst.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband