15.8.2009 | 14:33
Víkingar og skáld
Grein birt í mbl 30ág09 send mbl 10ág09 birt á jonasgunnar.blog.is 15ág09
*****
Búsáhaldabylting, alþingiskosningar og stjórnarskipti fyr á þessu ári færðu þjóðinni von um trúverðuga stefnu burt úr brimgarði bankahruns og vonleysis.
Færðu þjóðinni von um Nýtt Ísland. Betra Ísland. Von sem m.a. uppfærði hugsjónir um skárri veröld og betra samfélag. Uppfærði drauminn um betra og fegurra mannlíf.
Rifrildið um Icesave í sumar bendir til þess að draumurinn sé að hverfast í martröð.
Málefnið mörgum augljóslega ofviða, innan þings og utan, þingmönnum, fjölmiðlafólki, greinarhöfundum, bloggurum, sbr. þrotlaust sundurlyndið, þrasið og skuggalegar skapsveiflur ósköpum orðbragðs, gráti og grátklökkva reiði og gnístran tanna ef ekki dansar veröld eins og rökþrota vill.
Svik þingmanna borgarahreyfingar við stefnu og hreyfingu amen á eftir Icesave. Svik játuð upphátt um miðjan dag með drottinhollustu við hættulegasta öfugmæli heimsins sem á íslensku er samtals þrjú orð: tilgangurinn helgar meðalið.
Svik sem auðvitað þýða samstundis afsögn þessara þingmanna. Borgarahreyfingin er rúin trausti þar til því réttlæti er fullnægt.
Rangfærslur, rakalausar upphrópanir og útúrsnúningar um ESB-samstarfið hafa bætt gráu ofan á svart. Einar Kr. Guðfinnsson, þingmaður og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, sér til dæmis óvænt ástæðu til þess í grein sinni í Mbl. 6. ág. sl. að rangtúlka óhemju ítarlega nýleg orð sjávarútvegsráðherra Spánar.
Ráðherrann dirfðist sem sagt segja það forréttindi Íslendinga að engu leyfist enn að eiga meirihluta í íslensku sjávarútvegsfyrirtæki nema framvísi íslensku ríkisfangi.
Einar afflytur þessa kunnu staðreynd alkunnum gapuxahætti íslenskra kvótagreifa - sem eins og alþjóð veit þykir öll vínber súr nema eigi þau sjálf, greifarnir.
Gúttóslagur Bjarna formanns sjálfstæðisflokks í Mbl. í morgun 10. ág. 09, er ekki síst vitnisburður um hve brýnt er að þjóðin losi sig úr fjötrum fólks og flokka sem lýsa drottinhollustu við öfugmæli.
Losi sig úr fjötrum fólks og flokka sem þvælast fyrir skynsamlegri úrlausn brýnustu þjóðmála, svíkja og skemma í þeim æðsta tilgangi að halda eða ná völdum.
Dagljóst er að í okkar nágrannlöndum myndi hiklaust teljast vítavert og hafa alvarlega eftirmála í för með sér ef æðstu forystumenn þjóðar og þjóðarbús myndu þumbast svona endalaust opinberlega um ábyrgð ríkisvaldsins á lágmarksinnstæðutryggingum skv. EES-samningnum; sú ábyrgð hefur legið fyrir í fjórtán ár, og út á þá ábyrgð stunduð víðtæk viðskipti.
Engin furða þó spurt sé góðlátlega bæði hér og erlendis: Má ekki færa umræðuna á hærra plan?
Icesave og ESB-umsókn marka saman slóð til nýrrar framtíðar. Marka veg til víðtækara nánara samráðs og samstarfs Íslands og Evrópu.
Þessu fylgja augljóslega aukin erlend samskipti, mest og best við okkar nánustu vina- og viðskiptaþjóðir; og ber að fagna, ef Íslendingar ætla sér áfram til jafns við þessar þjóðir um hagsæld og velferð.
Eins ber að fagna því að Íslandi er nú um það bil mörkuð trúverðug stefna. Trúverðug sigling. Mörkuð stefna endurreisn til sjálfshjálpar með auknu samráði og samstarfi við nágrannaþjóðir.
Fái þjóðin hrist af sér slæma stjórnmálmenn, slæma stjórnendur og ábyrgðarlaus vinnubrögð má vænta mikils ávinnings af þeirri siglingu, ekki síst aukinnar víðsýni og þroska.
Í sumarbyrjun kom út nýtt greina- og ritgerðasafn um þjóðmál, bók samnefnd þessu greinarkorni, þar segir m.a. í grein sem ber heitið Ættjarðaróð:
"Ný sjálfstæðisbarátta er sjálfkrafa hafin hérlendis í kjölfar efnahagshruns.
Þessu gera sér allir grein fyrir sem sjá vilja mál og málefni eins og eru í raun og sann ... Ný sjálfstæðisbarátta snýst ekki eins og sú fyrri um sjálfstæði og fullveldi frá né undan fjötrum erlends valds. Snýst heldur ekki um einangrun lands og þjóðar, versti kostur alls ef á annað borð á að tryggja eins og kostur er sjálfstæði og fullveldi smáþjóðar, sbr. utanríkisstefnu Íslands frá stofnun lýðveldisins.
Ný sjálfstæðisbarátta snýst um samráð og samstarf. Snýst um að verja sjálfstæði og fullveldi Íslands og íslenskrar þjóðar, í samráði og samstarfi með öðrum þjóðum, sem fullgildir þátttakendur í veröld og umheimi.
Ný sjálfstæðisbarátta snýst um erlend samskipti, um fundi og fundargerðir, valkosti og lausnir, um vinnslu og miðlun upplýsinga, skýrslugerð og ákvarðanatöku, um áætlanagerð og framkvæmd áætlana, um eftirlit ... snýst um besta kost smáþjóðar í ótryggri veröld ... besta kost sem innsta kjarna hugsjónar og sáttmála er þessi: samráð og samstarf á vettvangi jafnræðis frjálsra fullvalda þjóða um sameiginlega hagsmuni.
Ný sjálfstæðisbarátta snýst um þekkingu og menntun, hugsjónir og gildismat, vit og framgöngu, markmið og verkefni þjóðar sem aftur hefur lært nauðsyn þess að sníða sér stakk eftir vexti."
Góð tiltekt gulls ígildi. Þjóðmálaumræða sumarið 2009 sýnir hve tiltekt í kjölfar búsáhaldabyltu, kosninga og stjórnarskipta er komin stutt eins og við sjálf, götuna fram eftir veg.
10ág2009 / jge
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.5.2010 kl. 14:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.