Greiðslujöfnun fasteignaveðlána: vítaverð ráðgjöf?_

 

Ef það er rétt að húsnæðisskuldir heimilanna nemi 1200 milljörðum króna, þar af 80% verðtryggð lán, 20% erlend lán, mun verðbótahækkun á einu ári m.v. 30% ársverðbólgu verða 288 milljarðar króna.   

Samsvarar öllum séreignarlífeyrisparnaði landsmanna, ef upplýsingar eru réttar.

Og þá er eftir að greiða af þessum verðbótum vexti í 25 til 40 ár að óbreyttu og auk þess margföldunaráhrif verðbóta og vaxta á þessa fjárhæð, með sívaxandi hækkun á greiðslubyrði og eftirstöðvum mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. 

Jóhönnu þáttur   

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, flugfreyja og vinsælasti stjórnmálamaður landsins, skrifar grein í mbl í gær 20.nóv.08 um greiðslujöfnun fasteignaveðlána, lagasmíð samþykkt í hvelli sem hækkar óvart höfuðstól lána hraðar en verðbólgan og eykur greiðslubyrði á lánstíma og því líkleg til að tróna lengi á lista vitlausustu laga alþingis.   

Jóhanna segir þrjár ástæður mestar fyrir því að ekki er unnt að frysta útreikning verðbóta á verðtryggðum húsnæðislánum:   

1. Eigið fé fjármálastofnana, þ.m.t. lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs, mun rýrna um 180 milljarða króna á einu ári.

2. Eigið fé Íbúðarlánasjóðs mun brenna upp á 2-3 mánuðum og sjóðurinn þar með verða gjaldþrota.

3. Útgáfa verðtryggðra lána myndi stöðvast og fjármagna þyrfti íbúðarkaup með óverðtryggðum lánum, nú með 20% ársvöxtum.   

Spurt er: hversu vel duga þessar röksemdir gegn því að frysta útreikning verðbóta?  

Svar: Þær duga alls ekki þjóðarhag, ástæðurnar þessar: Sparnaður þjóðar í vinstri vasa upp á 288 milljarða króna á ári er miklu betri en rýrnun tekna sjóða þjóðar úr hægri vasa um 180 milljarða króna á ári, ef tölur Jóhönnu eru réttar.    

Sparaðar greiðslur vaxta og verðbóta ofan á þessa 288 milljarða út lánstíma eykur að auki margfalt ávinning af frystingu útreiknings verðbóta.  

Tapað eigið fé íbúðarlánasjóðs ríflega áætlað 20 milljarðar að teknu tilliti til 10 til 12 milljarða taps sjóðsins vegna viðskipta við bankakerfið, sbr. mbl. 18. nóv, bls. 19. Og bætast við þessa 180 milljarða, alls 200 milljarðar. 

Mismunur á vinstri og hægri vasa á einu ári: 88 milljarðar!

Sem er beinn hagnaður þjóðarinnar af frystingu útreiknings verðbóta. Og er um leið tap þjóðarinnar á einu ári ef ekki er fryst.   

Um útgáfu lána til íbúðarkaupa þarf ekki að fjölyrða. Enginn vill lána fé nema á okurvöxtum, raunvextir án margföldunaráhrifa komnir yfir 25% og því ekkert heimili sem vill gefa út skuldabréf og selja, m.ö.o. fá lánað til fjárfestinga og rekstrar heimilanna.   

Nema heimilin stefni leynt og ljóst á gjaldþrot.

Kannski vegna þess að úthald er þrotið hjá mörgum til að verja eignir sínar í þessum áföllum öllum, auðvitað á ábyrgð kjörinna ráðsmanna þjóðarinnar.

Sem enn þverskallast við ábyrgð sinni og virðast ráðþrota gagnvart sjálftökuvaldi embættismanna  sinna, sem nú hafa stofnað amk tvö ríki í ríkinu: seðlabanka og fjármálaeftirlit, sem fara sínu fram, ótemjur.

Jóhanna hefur fengið vítaverða ráðgjöf - ef maður trúir því að heilög Jóhanna reyni aldrei vísvitandi að koma heimilunum á kaldan klaka.

Né snuða þjóðina um ávinning af einfaldri og skilvirkri varnaraðgerð í þágu heimilanna.  

Ábyrgð á ákvörðun, aðgerðum, orðum, sem kjörinn ráðsmaður, eftir sem áður Jóhönnu.    

Það lítur sem sagt út fyrir það nú um hádegisbilið 21. nóv. 2008 að Jóhanna ráðherra, samráðherrar, þingmenn, verkalýðshreyfing og lánadrottnar, þ.m.t. lífeyrissjóðirnir og íbúðalánasjóður, stefni öll öldungis óvart í heljarsamkrulli að því að hrekja heimilin í landinu í gjaldþrot og landflótta með svona áróðri, tæpast pappírsins virði að setja á blað, því miður; er einfaldlega hrein og klár móðgun við þjóðina. 

Ögmundar þáttur   

Eins er um ummæli Ögmundar Jónassonar, sem stundum stóð sig vel eins og Jóhanna, hrein móðgun við þjóðina, þegar segir í viðtali í mbl. 19. nóv. 08, bls. 14, að afnám verðtryggingar sé ógerlegt í óðaverðbólgu!   

Tómt bull. Nú er einmitt rétti tíminn að hefja afnám verðtryggingar!  

Nú er lag til þess að frysta útreikning verðbóta t.d. í 4 til 6 mánuði fyrst, m.v. t.d. 3,5% ársverðbólgu eða þá við efri mörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka, sem fyrsta skref í að afnema verðtryggingu. Tölurnar tala skýrt sínu máli.  

Ekki má gleyma því að mikilvægasta forsenda verðtryggðrar lántöku heimilanna var verðbólgumarkmið Seðlabanka.

Sem ríkisvaldið staðhæfði, m.a. með lagasetningu að skyldi verja. Ríkisstjórnin lofaði m.ö.o. landsmönnum tilteknu lágu verðbólgustigi. Og hefur svikið það loforð.

Er það grundvöllur skaðabótamáls úr hendi ríkisins, eða kjörinna forystumanna, þegar markmiðið er svikið?

Hversu langt nær knattspyrnulið sem aldrei nær raunhæfum markmiðum sínum og aldrei skiptir um þjálfarann?

Með frystingu útreiknings verðbóta eins og hér er lagt til er gætt jafnræðis við þá sem eru með myntkörfulán og fá frystingu afborgana og vaxtagreiðslna.

Greiðsluflæði er tryggt til lánadrottna, dregið úr hættu á gjaldþrotum, dregið úr falli einkaneyslu og um leið skapast nauðsynlegt svigrúm til skynsamlegra efnahagsráðstafana, sbr. framkomnar tillögur.

Þ.m.t. gengisfall að botni með verðbólguskell, meðan erlent fé leitar burt úr hagkerfinu. Aukin seðlaprentun og lánveitingar Seðlabanka beint til lykilfyrirtækja og fjármálastofnana til að halda uppi atvinnustigi með lausafjármögnun fyrirtækja og rekstraraðila, samhliða stórlækkun stýrivaxta.

Þannig má koma hjólum atvinnulífs aftur á skrið og um leið stöðva ásókn spákaupmanna, t.d. í jöklabréf og aðra fjárfestingarkosti krónu, sem ávallt hefur í sér fólgna dulda gengislækkun ef að gjaldmiðli er sótt, sem hefur veikan bakhjarl.

Þessar aðgerðir draga úr hættu á gjaldþrotum, vinna gegn auknu atvinnuleysi, draga úr þörf fyrir félagslegar aðgerðir og þar með spara stórfé úr sameiginlegum sjóðum ríkis og sveitarfélaga, sem sjá ekki úr augum nú þegar, hvað þá er á líður. 

Aðgerðir sem hægt er að framkvæma fumlaust og hratt þegar búið er að verja heimilin fyrir meðfylgjandi verðbólguskell, sem ætla má nú að vari 4 til 6 mánuði.

En lagfæra auðvitað lítt ef heimilin og þar með fyrirtækin, einkum smásöluverslun og þjónustustarfsemi hvers konar, verða unnvörpum gjaldþrota.

Augljóst af þessu hve normalisering verðtryggingar er alger lykilþáttur og grundvallarforsenda skynsamlegrar björgunaráætlunar.

Verðtryggingu verður að gera skaðlausa um stund meðan slagurinn er tekinn og stoðum rennt undir hagkerfið.

Um leið verður að stefna með afgerandi hætti á framtíðarstöðugleika hagkerfisins með því að leita eftir tengingu við evru gegnum ees samninginn og aðildarumsókn að esb með samkomulagi um maastrickt skilyrðin, sem Ísland verður án efa fljótt að uppfylla ef loksins loksins fæst sleginn tónninn, stefnu og baráttu, þreki og dug þjóðarinnar.

Um sjávarútveg og auðlindir er einfaldlega samið - rétt eins og aðrar aðildarþjóðir sem einnig eiga auðlindir, hafa gert, um leið og þjóðirnar tryggja sér rödd og atkvæði á evrópuþinginu og í ráðherraráði og stjórnarráði esb.

Tryggja sér aðgang að samráði og samstarfi um framtíðina í heimsþorpinu.

Þ.m.t. rétt til þess að hafa eitthvað um það að segja hvaða lögum og reglum við lifum eftir hérlendis í stað þess að innlima orðalaust löggjöf esb eins og nú er gert.

Af  hverju ekki að láta á þetta reyna, norðmenn hafa reynt tvisvar; og ætla inn ef við förum inn. Hagkvæmt fyrir alla aðila, auk þess að styrkja norrænt samstarf og eflist enn við evruvæðingu, löngu byrjuð hér þó ekki sé opinberlega viðurkennt ennþá.

Margir neita ofangreindu á grundvelli óljósra röksemda og hræðsluáróðurs. Einn þeirra er Ögmundur Jónasson.

Ögmundur meira að segja neitar því að útskipting krónu fyrir aðra stöðugri mynt sé besta leiðin til þess að losna undan verðtryggingu. Sjá mbl. 19. nóv. bls. 14.  

Þvermóðskan sjaldan óvænt hjá Ögmundi. Áhrifamaður í verkalýðshreyfingu í áratugi, þar sem allt snýst ennþá um að verja sjóðasöfnun lífeyrissjóðanna, sem alltaf tapa fé á áhættufjárfestingum, tapa okkar fé, landmanna, síðast stórfé á hruni bankanna.    

Fólk hefur setið of lengi í trúnaðarstöðu fyrir launafólk þegar ver og ver aumingjaskapinn í áravís og þykir því allt í lagi með verkalýðsforystu og fagstjórnendur sem leika sér ár eftir ár ofurlaunafólk í lífeyrissjóðum landsmanna eins og ofurgráðugir útrásarvíkingar; leika sér stjórnarmenn og vinnuveitendur upp á punt út um allt í atvinnulífi eins og séu alvöru vinnuveitendur.  

Engin furða þó spurt sé:  Sjá kjörnir ráðsmenn þjóðar nokkuð til sólar yfirleitt þegar svona er komið?  

Svari hver fyrir sig. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband