Hjálpum þeim!

Blaðagrein: Hjálpum þeim! Send mbl., 2.des.2008. Birt í mbl. 4jan09, bls.35.

Netgrein: Samhlj. á jonasgunnar.blogg.is, 8.des.2008.

*****

Tugþúsundir landsmanna horfa nú með vaxandi skelfingu á sparnað sinn í íbúðarhúsnæði brenna upp vegna verðtryggingar húsnæðislána.

Horfa ráðþrota á 17% verðbólgu neysluverðsvísitölu hækka 20 milljón króna húsnæðislán um nær 300 þúsund krónur á mánuði! Horfa á 30% spáverðbólgu hækka sömu lánsfjárhæð um 500 þúsund krónur á mánuði!  

Fjórir mánuðir í 30% verðbólgu hækka því 20 milljón króna verðtyggt húsnæðislán um meir en 2 milljónir króna!   

Og bera verðbætur á verðbætur ofan, vexti á vexti ofan, út lánstíma allt að 40 ár, nú allt að 55 ár, sbr. úrræði Íbúðarlánasjóðs.   

Lögvernduð eignaupptaka svo hrikaleg að allra verstu skattþrjótar í hópi stríðandi konunga fyrri alda blikna og blána í samanburði við þessa blóðmjólkun einnar þjóðar, sem að óbreyttu færir tugþúsundir í gjaldþrot.   

Íslensk þjóð mótmælir daglega þessari eignaupptöku. Mótmælir, mótmælir, mótmælir! Og hvað gerist? Ekkert!  

Þjóðin spyr dag eftir dag forystumenn ríkisstjórnar, stjórnarandstöðu, verkalýðshreyfinguna, lífeyrissjóðina, nýju bankana: ætlar enginn að stöðva þetta brjálæði?  

Svarið er nei! Og aftur nei!

Því talsmenn verðtryggingar færast fremur í aukana þessa dagana að verja þennan óvænta séríslenska verðbólgugróða.   

Fáein dæmi: Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði, í mbl. 2. des.08, á óvæntu stímabraki eins og óviti.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í viðtali á rás2, 27.nóv.08, með hitamælistugguna frá 1980.

Jóhanna, félagsmálaráðherra, í grein í mbl. 20.nóv.08, bls.26, að skýla sér á bak við nefndina/skýrsluna/lögin um greiðslujöfnun (nefndarformaður: Gylfi forseti).

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstrigrænna og formaður BSRB, í viðtali við mbl.19.nóv.08, bls.14.

Magnús Stefánsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, þingmaður framsóknarflokks, í Kastljósi 26.nóv.08.  

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrigrænna, á borgarafundinum, 24. nóv.08, sagðist raunar tilbúinn að skoða frystingu verðbótaþáttar, því hann gerði sér grein fyrir stöðu heimilanna, en það yrði dýrt.  

Hvað á Steingrímur við?  Dýrt fyrir hvern?  Ríkissjóð? Íbúðarlánasjóð? Bankana? Lífeyrissjóðina?

Ef Steingrímur á við tapaðan verðbólgugróða þessara aðila úr vösum heimilanna þá hefur hann rétt fyrir sér. Það er dýrt að missa óvæntar ofurtekjur.   

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingar, á borgarafundinum, vísaði á sjúkrapakkann, þ.e. greiðslujöfnun, o.fl., sbr. lög frá alþingi, sem eru nauðasamningar sem plástra holundarsárin eftirá.

Ingibjörg eyddi ekki einu sinni samúðarorðum að stöðu heimilanna.   

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokks, ekki heldur; sem enn slær hausnum við steininn og stefnir nú fast á núll fylgi í helli sínum með LÍÚ.  

Frjálslyndir seinheppnir, heimta afnám verðtryggingar sem er ótímabær krafa því ofan af verðtryggingu þarf að vinda undir krónunni.   

Guðjón formaður hefur þó sett fram tillögu um frystingu verðbóta; og ætti helst að flytja um það þingsályktunartillögu tvisvar á dag!  

Samtryggingarkerfi verðtryggingarsinna sýnir m.ö.o. þjóðinni klærnar þessa dagana. Heimilin á Íslandi skulu keyrð í gjaldþrot og skuldafjötra þrældóms af öllum ráðandi öflum íslensks samfélags.   

Um það bil eitthundrað þúsund lántakendur með u.þ.b. eitthundrað og fimmtíu þúsund verðtryggð lán að fjárhæð u.þ.b. eittþúsund milljarðar króna, skulu borga brúsann. Stóra brúsann.  

Borga hundruð milljóna króna tap lífeyrisjóðanna af viðskiptum sínum við bankakerfið, endurfjármagna eigið fé Íbúðarlánasjóðs, fáeina tugi milljarða, sem tapaði minnst tíu milljörðum króna á viðskiptum sínum við bankakerfið, o.s.frv.

Gjaldþrotaáhættan ein og sér ætti þó að öllu eðlilegu að vera kappnógur viðskiptalegur hvati bönkunum, Íbúðarlánasjóði og lífeyrissjóðunum, til að vernda þessa þúsund milljarða króna og tekjustreymið af þeim í framtíð.   

Hvati til þess að gera eins og þjóðin vill: frysta útreikning verðbóta í 4 til 6 mánuði, m.v. 3 til 4% verðbótaþátt, meðan tekist er á við gengis- og gjaldeyriskreppu og verðbólgan er kveðin niður hérlendis eins og annars staðar í okkar heimshluta.   

En því miður. Forystufólk þjóðarinnar er uppvíst að krónískri blindu.

Það er sama saga og síðast: þau halda að þetta reddist.

Eins og átti að reddast þetta með bankana og lausafjárskortinn.   

Eins og átti að reddast þetta með Icesave. Uns ekki dugði handsoff og aðgerðaleysið. Og þá átti að redda með hrokanum, sem vildi halda þýfinu af viðskiptavinunum með því að borga þeim smávegis til baka.   

Eins er um greiðslujöfnunina: smávegis til baka. Með bakreikningi skuldafjötra og aukinni greiðslubyrði síðar.  

Eins halda þau nú að nái að innbyrða verðbólgugróðann af húsnæðislánum heimilanna án eftirmála.

Óþarfi sé að hlusta né sjá, óþarfi að skilja neitt né gera neitt nema sitja að virðingu sinni á háum stólum, halda áfram að karpa um ekki neitt, lesa tölvupóst og blogga meðan stefnir í fjöldagjaldþrot og landflótta.  

Þau þurfa hjálp! Þar til unnt er að kjósa um allt uppá nýtt. Hjálpum þeim! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband