Fyrir hag heimilanna: súrrealísk græðgi?

Blaðagrein send Mbl 8. des. 2008

Netgrein samhlj. á jonasgunnar.blog.is, 8. des. 2008

Borgarafundur 2 í Háskólabíói í kvöld, 8. des. 2008, kl. 20:00

*****

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, ritar grein í Mbl. í gær 7.des.08, bls. 40, undir heitinu: fyrir hag heimilanna, þar sem fylkja sér sérkennilega súrrealísk heildarsamtök launafólks á Íslandi gegn brýnustu hagsmunum launafólks á Íslandi.

Í sama blaði, á bls. 13, segir af súrrealískri framtíð ungs fólks á Íslandi, sem datt í hug að eignast íbúðarhúsnæði fyrir fjögurra manna fjölskyldu með algengri normal lántöku gegn veði í íbúðinni, eins og allir þekkja í veröldinni; og uppgötvuðu í Mbl. að þá þarf að greiða til baka 200 milljónir króna fyrir 20 milljón króna húsnæðislán til 30 ára, m.v. 10% ársverðbólgu og nær 540 milljónir króna, ef lánið er til 40 ára.

Og ef ársverðbólga er 18%, eins og nú, þá þarf að greiða 1.002 milljónir króna fyrir 30 ára lán! Og 5.275 milljónir króna fyrir 40 ára lán!

Og er örugglega veraldarmet í vetrarbrautinni sem seint verður slegið.

Einu sinni var Gylfi forseti víst ein af hetjunum í vörninni sem kom launafólki til hjálpar. Gerðist svo ráðsmaður í lífeyrissjóði, fór að ávaxta fé launafólks, í félagi við fjárfesta og bankastjóra; og einhvers staðar á leið úr vörn í sókn hljóp hann til liðs við þá í miðjum leik.

Og samt er hann forseti ASÍ og þiggur ofurlaun fyrir þessa þjónustu frá launafólki. Það er sennilega annað veraldarmet í vetrarbrautinni.

Gylfi segir í grein sinni brýnast þetta: a) að verja "störfin okkar", b) tryggja ný störf þeim sem ekki hafa starf og c) komið verði í veg fyrir að almenningur lendi í verulegum greiðsluerfiðleikum.

Kynnir svo "viðamiklar bráðaaðgerðir" skv. lið c), fjögur úrræði mest og best sem öll miða að greiðslufresti og nauðasamningum: greiðslujöfnun, frestun afborgana, lenging skammtímalána og greiðsluaðlögun.

Eins og sé glænýtt fyrir Gylfa og félaga á góðum launum að t.d. lögmenn, viðskiptamenntað fólk og ráðgjafar, t.d. á Ráðgjafarstofu heimilanna, fáist við greiðsluvanda daginn út og daginn inn, m.a. með þessum úrræðum.

Svo er sagan öll. Allt í einu. ESB og Evru. Tveggja mánaða púlvinnu að málefnum heimilanna á vettvangi verkalýðshreyfingar og stjórnvalda (Gylfi sat formaður nefndar Jóhönnu félagsmálaráðöherra um greiðslujöfnun, o.fl.) allt í einu lokið.

Eftir standa áherslur: á tvennt: störf og greiðslugetu! Á meðan tikkaði óðaverðbólgan allan tímann á húsnæðislán heimilanna!  

Og þykir nú vetrarbrautarmet í móðgun við launafólk, heimili, kjósendur.

Ekkert er minnst á að verja eigið fé heimilanna. Ekkert sagt um að koma í veg fyrir tröllaukna skuldafjötra í framtíð af völdum óðaverðbólgu í nútíð.

Launafólki skal sem sagt fórnað á altari bankanna, Íbúðarlánasjóðs og lífeyrissjóðanna, sem sárvantar fé eftir áföll í áhættufjárfestingum.

Er þá komið í sömu sögu og síðast fyrir aldarfjórðungi: þegar samtryggingarkerfi verðtryggingarsinna, með þursagang óbilgirni í bland við tröllheimsku, kom í veg fyrir skynsamlegar björgunaraðgerðir í nær lokuðu hagkerfi Íslands og íslenskrar krónu.

Þá var þjóðinni talin trú um að stórfellt tap banka og lífeyrissjóða hlytist af ef útreikningur verðbótaþáttar verðtryggðra húsnæðislána yrði frystur tímabundið, meðan versta verðbólguskothríðin gengi yfir.

Áróður bakkaður upp af fjölmiðlum og leiddi til óþarflega erfiðrar og djúprar gjaldþrotahrinu og víðtækra hörmunga, eins og margir þekkja; og telja verður þó smáræði miðað við það sem nú er framundan að óbreyttu.

Bjarni Bragi Jónsson, arkitekt verðtryggingar lánsfjár á Íslandi, er enn á sömu buxunum og þá, sbr. Mbl. 7.des.08, bls. 12. Hann vill einfaldlega ekki almennt viðurkenndar leikreglur á fjármálamarkaði.

Viðurkennir ekki hið augljósa: að fjármálakerfið hér í okkar litla opna EES-hagkerfi til fjórtán ára, stjórnast enn af græðgi fákeppni á smásölumarkaði lánsfjár með einstakri velþóknun og lögeggjan stjórnvalda, lífeyrissjóða og verkalýðshreyfingar.

Fjármálakerfi þar sem lífeyrissjóðir landsmanna gegna lykilhlutverki, því sjóðirnir kaupa í stórum stíl verðtryggð skuldabréf húsnæðislána af íbúðarlánasjóði, sjóðsfélögum, o.fl. og verja til þess iðgjöldum launafólks.

Skammta svo launafólki skert lífeyrisréttindi eftir árferði, einkum eftir tapi á áhættufjárfestingum.

Lífeyrissjóðirnir áttu alls ekki von á ofurverðbólgugróða í skammdeginu; óvæntum ofurtekjum sem múra upp í tapið af fjárfestingum í bönkunum og víðar; ofurtekjum til enn meiri áhættufjárfestinga með fjármunum launafólks.

Svo nú þarf þjóðin að vinna og borga! Segir ASÍ með lífeyrissjóðum og ríkisstjórn. Og óðaverðbólgan þarf að hækka hressilega húsnæðislánin svo náist í meira fé af heimilunum! Og þegar stefnir í gjaldþrot, reddum við hverju heimili fyrir sig, segir Gylfi, konungur lífeyrissjóðanna!

Svona hagfræði sannarlega hin döpru vísindi. Vitnisburður kórvillu á heiði. Súrrealískt met fáránleikamöndli með eigur annarra.

Þau hafa verið of lengi þegar allt er orðið eitt málefni: að verja fjárfestingarsjóði og banka og fórna til þess hag heimilanna.

Þau þurfa hjálp! Hjálpum þeim!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband