Skuldafenið: Ein leið til himins?

 

Óvænt og stórfelld eignatilfærsla hefur orðið hérlendis í kjölfar efnahagshruns.

Óvænt og stórfelld millifærsla úr vösum skuldara til kröfuhafa vegna óvænts stórfellds gengisfalls, óðaverðbólgu og verðtryggingar lánsfjár.

Þessi eignatilfærsla/eignaupptaka er bókfærð hjá kröfuhöfum jafnt og þétt þó öllum sé ljóst sem sjá vilja að stór hluti af þessum vonarpening er tálsýn ef kröfuhaf­ar/lána­drottnar gera ekki nauðsynlegar tilslakanir gagnvart skuldurum/skuldunautum.

Það er því einkar áhugavert og merkilegt rannsóknarefni hvers vegna íslenskir hagfræðingar og hagfræðimenntað fólk, ráðherrar, stjórnendur, prófessorar, sérfræðingar, veigra sér aftur og aftur við að taka á þessu augljósa réttlætismáli almennings á Íslandi.

Jafnvel eindregin hvatning og rökstudd ráð prófessor Stieglitz - nóbelsverðlauna­hafi í hagfræði og ráðgjafi stjórnvalda um efnahagsmál sem sótti Ísland heim fyrir fáum dögum - um að taka verði með afdráttarlausum hætti á skuldum landsmanna, eru höfð að engu.

Ragnar Önundarson, formaður stjórnar lífeyrisjóðs verslunarmanna, skrifar grein birt í Mbl. í gær 17. sept. 2009: "Eina leiðin til niðurfærslu skulda er áhættusöm", þar sem hann lepur upp fullyrðingu í grein Jóns lektors, birt í Mbl. 3. sept. 2009, um að ekki megi láta undan þrýstingi um almenna leiðréttingu skulda landsmanna. Jón rökstyður þessa fullyrðingu einni röksemd: verið sé að hygla þeim sem fóru sér að voða í uppsveiflunni á kostnað þeirra sem voru varkárari.

Ragnar segir: "Ástæða er til að taka undir með Jóni, þetta er rétt niðurstaða." Punktur. Snýr sér svo að því að ræða framtíðarskipulagið. Nóbelsverðlaunahafinn skýrði þó alltaf út af hverju hann er sinna skoðana, oft mörgum góðum röksemdum.

Í morgun 18. sept. 2009 skeiðar svo á sama öndvegisstað í Morgunblaðinu prófessor Þórólfur Matthíasson og hvað gerist: veigrar sér við að taka á því sem orðið er og einblínir í staðinn á framtíðarskipulagið - kannski er það roðinn í vestri.

Ástæða stóráhugans á framtíðinni blasir þó við: kröfuhafar nái að innleysa óvænta stórfellda eignaupptökuna í nútíð og nálægri framtíð með vítisvélum verðtryggingar og gengisflökts hjá almenningi þessa lands.

Þórólfur, Jón og Ragnar, langskólagengnir hagfræði, macro og micro, hefðu betur sett fram tillögur um lausn á þessu endemis skuldabasli sem mun ríða þjóð og þjóðarbúi á slig að óbreyttu strax í nútíð með hliðsjón af öllum hagsmunum.

Röksemdir þessara spekinga fyrir því af hverju ekki skal láta undan þrýstingi að leiðrétta hrikalegt eignatjón almennings á Íslandi er dæmigerð hagsmunagæsla sem sést best í þeirra eigin orðum þegar snúa vandanum uppá skuldarana innbyrðis til að verja hag kröfuhafa.

Glundroðakenning stjórnunarfræði sem klínir smjörklípu á köttinn til að gera hundinn friðsama öfundsjúkan og æsir upp báða í græðgi fávisku með ófriði. Á meðan situr smjörklípir jólasveinn heilögu friði og ræður yfir smjörinu og étur vild sína.

Íslenskt tungutak gegnsætt og heiðarlegt eins og náttúra lands og þjóðar því þegar upp kemst um kauða hefur hann étið upp vild sína og á þá eðlilega fótum sínum fjör að launa.

Ef spurt er um lausn er fyrsta hjálp þessi: ekki gera of lítið of seint, né brjóta jafnræðisreglu og stjórnarskrá - sjá grein jge send Mbl. 3. sept. 2009.

Klæðskera­sauma svo lausnina í samning/sáttmála þar sem ríkisvaldið leiðréttir með samræmdum hætti þá eignaupptöku sem afglöp leiddu til og skrifar þá samningsfjárhæð skuld við kröfuhafa í bókum ríkisins: skuld á ábyrgð ríkissjóðs að greiða, semja um eða afskrifa er betur árar.

Eftir stendur heilbrigðara hagkerfi sem mun skapa auknar tekjur og eignir í vasa kröfuhafa eftir slíka þjóðarsátt.

Firring ráðherra, stjórnenda, prófessora, sérfræðinga sem halda því fram að ekki þurfi að leiðrétta, eða aðeins leiðrétta hjá sumum í eitt skipti og ekki hjá öðrum né heldur síðar, mun leiða hér allt í óþarfa ógöngur.

Dagljóst er öllu hve stíft róir gegn almenningi batteríið allt saman, hve stjórnvöld/samtrygg­ingar­kerfi leika nú hættulegan leik gegn skynsemi þjóðar þar sem nú er svo komið að börnin skilja betur en prófessorarnir.

Spurt er: Af hverju má ekki hlusta á skynsemi Stieglitz, Krugman og fleiri hófsamra á sviði hagvísinda með enga hagsmuni í samtryggingarkerfi fjárflæðis hér úr vösum almennings í vasa þeirra sem ekki þola almenning, telja sig ekki til almennings, hafa aldrei gert, munu aldrei gera?

Svarið þekkja allir: Þau fara eins langt og þjóð leyfir þeim, eins og reynsla þjóðanna sýnir.

Bandaríkjamenn hafa t.d. einna mest reynslu af þessu sviði - af sviði stólpafrekju yfirgangs refsháttar sem engu eirir heima né heiman en aktar vel undir slæðu dásemdarhjals upp í háls öllu um guð þjóð og frið velsæld og hamingju frelsi og velferð.

Þegar þeim ofbýður vestra hvað gera þá góðir US-þegnar sem hafa að kjörorði frelsi og hugrekki:

Þau ganga út og mótmæla annan daginn, senda tölvupóst hinn daginn og hætta ekki fyr en almannahagur hefur sigur.

                                                                        18. sept. 2009 jge

Grein send Mbl 18. sept. 2009.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband